Reglur um VS-afla brjóta ekki gegn stjórnarskrá

birt 23. nóvember 2017

Í tengslum við umræðu um brottkast er vert að minnast á dóm Héraðsdóms Reykjaness frá 13. nóvember s.l. Í málinu lét Sjómannasamband Íslands reyna á það hvort reglur um svokallaðan VS-afla brytu gegn stjórnarskrárvörðum rétti sjómanna til að fá endurgjald fyrir allan afla sem kæmi að landi.

Reglur um svokallaðan VS-afla eru í lögum um stjórn fiskveiða. Með þeim er skipstjóra heimilað að halda allt að 0,5% af uppsjávarafla og 5% af öðrum sjávarafla utan aflamarks við löndun. Skilyrði fyrir því að skipstjóra sé þetta heimilt eru þau að hann haldi aflanum aðskildum frá öðrum afla og að aflinn sé seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði. Voru ákvæði þessi tekin upp í lög um stjórn fiskveiða á árinu 2001 í því skyni að vinna gegn brottkasti, með því að leyfa löndun á takmörkuðum hluta aflans utan aflamarks.

Til að koma í veg fyrir að útgerð og áhöfn hefðu hag af þessari heimild var kveðið á um að andvirði aflans skuli ráðstafað milliliðalaust af viðkomandi uppboðsmarkaði þannig að 80% renni í Verkefnasjóð sjávarútvegsins og 20% skiptast milli útgerðar og áhafnar í samræmi við samninga um hlutaskipti. Taldi Sjómannasamband Íslands að ákvæði þetta um skiptingu á andvirði aflans bryti gegn rétti sjómanna til að fá hlutdeild í heildarverðmæti þess afla sem kæmi að landi hverju sinni og að réttur þeirra til launa að þessu leyti væri varinn af stjórnarskrá og gengi því framar ákvæðum laga um stjórn fiskveiða.

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness var ekki fallist á með Sjómannasambandi Íslands að fyrrgreint ákvæði í lögum um stjórn fiskveiða skerti stjórnarskrárvarinn rétt félagsmanna þess til hlutdeildar af aflaverðmæti eða að útgerðin hafi brotið gegn kjarasamningi sjómanna við uppgjör á launum vegna VS –afla. Jóhannes Bjarni Björnsson hrl. fór með málið fyrir hönd útgerðarinnar.