Innanríkisráðherra braut jafnréttislög

birt 28. mars 2017

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag íslenska ríkið til að greiða umbjóðanda Landslaga 800.000 krónur auk dráttarvaxta í miskabætur vegna brota innanríkisráðherra á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.

Deilt var um setningu í þrjár stöður aðstoðaryfirlögregluþjóna við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Í maí 2014 setti innanríkisráðherra þrjá karlmenn í stöðurnar. Umbjóðandi Landslaga var einn af umsækjendum um stöðurnar.

Í framhaldinu kærði umbjóðandi Landslaga setninguna til kærunefndar jafnréttismála. Í júní 2015 komst kærunefndin að þeirri niðurstöðu að innanríkisráðherra hefði brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga við setningu í stöðurnar þar sem umbjóðanda Landslaga, sem er kona, hefði verið mismunað á grundvelli kyns í ráðningarferlinu.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur segir að þar sem íslenska ríkið hafi ekki krafist ógildingar á úrskurði kærunefndar jafnréttismála fyrir dómstólum verði talið að úrskurðurinn sé bindandi fyrir aðila málsins og geti dómurinn ekki breytt niðurstöðu hans. Var því lagt til grundvallar að innanríkisráðherra hefði brotið gegn jafnréttislögum við setningu þriggja karla í stöður aðstoðaryfirlögregluþjóna.

Í dómnum kemur fram að innanríkisráðuneytið hafi viðurkennt að nokkrir annmarkar hafi verið á ráðningarferlinu. Að mati dómsins voru fleiri þættir taldir til annmarka á ráðningarferlinu og er mat á menntun umsækjenda þar sérstaklega tiltekið.

Loks segir í dómnum að telja verði að brot á jafnréttislögum séu almennt til þess fallin að valda þeim sem fyrir slíkri mismunun verður miska og voru skilyrði til að dæma umbjóðanda Landslaga miskabætur því talin vera fyrir hendi.

Áslaug Árnadóttir lögmaður á Landslögum fór með málið fyrir hönd konunnar. Landslög veita alhliða lögfræðiráðgjöf og málflutning, m.a. á sviði stjórnsýslu- og jafnréttislaga. Nánari upplýsingar um þjónustu Landslaga veitir Hildur Ýr Viðarsdóttir hrl. (hildur@landslog.is).