Dómur um byggingarleyfi til að innrétta bar og veitingastað

birt 5. desember 2016

Þann 2. desember sl. var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Landsþings ehf. gegn Basalti ehf. og Klapp bar ehf. Landsþing ehf. krafðist þess að ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar um að veita Basalti ehf. leyfi til að innrétta bar og veitingastað í séreign sinni á 1. hæð og kjallara í fjöleignarhúsinu að Klapparstíg 33 yrði fellt úr gildi. Klapp bar ehf. rekur veitingastarfsemi á grundvelli leigusamnings við Basalt ehf. og var stefnt sem leigutaka að áðurlýstu húsnæði. Landsþing ehf. sem eigandi annarra eignarhluta í húsinu að Klapparstígs 33 byggði m.a. á því að með því að breyta 1. hæð hússins úr sýningarsal í bar og veitingastað væri verið að breyta hagnýtingu séreignar. Til þess hefði þurft samþykki hans og án þess væri ekki unnt að gefa út byggingarleyfi samkvæmt lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Í niðurstöðu dómsins kemur meðal annars fram að umsókn um byggingarleyfi hefði óumdeilt verið í samræmi við gildandi deiliskipulag og aðalskipulag fyrir umrætt svæði. Reykjavíkurborg bar því ekki skylda til að kynna Landsþing ehf. byggingaráform Basalts ehf. og umsókn um byggingarleyfi samkvæmt ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010. Málið byggðist því einkum á því hvort samþykki Landsþings ehf. hefði þurft til útgáfu byggingarleyfis samkvæmt þeim reglum sem gilda um útgáfu byggingarleyfis, m.a. lögum nr. 160/2010 um mannvirki.

Í forsendum dómsins var ákvæði 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sem kveður á um að með umsókn um byggingarleyfi skuli m.a. fylgja samþykki meðeigenda, skýrt á þá leið að þar sé vísað til samþykkis meðeigenda þegar byggingarleyfi lútir að sameign. Umrædd umsókn um byggingarleyfi laut hins vegar einungis að breytingum á séreign Basalts ehf. Dómurinn taldi það því ekki hafa verið skylda byggingaryfirvalda samkvæmt lögum um mannvirki að áskilja að samþykki annarra eigenda fjöleignarhússins að Klapparstíg 33 fylgdi með umsókn um byggingaráform og síðar byggingarleyfi.

Þá var ekki fallist á að fella ætti umrætt byggingarleyfi úr gildi með vísan til þess að Reykjavíkurborg hefði ekki gætt nægilega almennra reglna stjórnsýsluréttar um málsmeðferð.

Kröfu Landsþings ehf. um að fella úr gildi leyfi Basalts ehf. til að innrétta bar og veitingastað í húsnæði sínu var því hafnað.

Gróa Björg Baldvinsdóttir hdl. fór með hagsmuni Klapp bar ehf.

Landslög veita alhliða lögfræðiráðgjöf vegna skipulags- og byggingarmála sem og málefni tengd fjöleignarhúsum. Nánari upplýsingar um þjónustu Landslaga veitir Hildur Ýr Viðarsdóttir hdl. (hildur@landslog.is)