Fullnaðarsigur í grunnskólamáli

birt 23. febrúar 2019

Samkvæmt áliti Persónuverndar 22. september 2015 höfðu fimm grunnskólar í þremur sveitarfélögum, sem höfðu verið valdir af handahófi, ekki tryggt nægilega öryggi persónuupplýsinga sem voru færðar inn í vefkerfið Mentor. Beindi stofnunin ítarlegum tilmælum til skólanna um að ráðast í ýmiss konar úrbætur. Að úrbótunum loknum sendu skólarnir stofnuninni gögn þeim til staðfestingar. Með bréfi dags. 4. júní 2018 tilkynnti stofnunin að skólarnir hefðu ekki farið að fullu að fyrirmælum hennar. Var veittur lokafrestur til 15. ágúst 2018 til að leggja fram umbeðin gögn en að öðrum kosti myndi Persónuvernd taka til skoðunar að stöðva frekari skráningu persónuupplýsinga í Mentor-kerfið. Í kjölfarið leituðu skólarnir fimm til Landslaga og óskuðu eftir aðstoð við að uppfylla kröfur Persónuverndar. Voru umbeðin viðbótargögn send stofnuninni í áföngum, þeim síðasta þann 15. október 2018. Með bréfi dags. 22. janúar s.l. tilkynnti Persónuvernd málsaðilum að það væri mat stofnunarinnar að grunnskólarnir hefðu uppfyllt þau fyrirmæli sem lögð voru fyrir í áliti stofnunarinnar. Taldi Persónuvernd því ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna málsins og var upplýst að því væri lokið af hálfu stofnunarinnar.

Það voru þau Hörður Helgi Helgason og Salka Sól Styrmisdóttir sem veittu ráðgjöf og gættu hagsmuna grunnskólanna fimm í málinu.