Dómur Hæstaréttar um gjaldheimtu af ferðamönnum inn á Geysissvæði

birt 23. október 2015

Þann 8. október sl. var kveðinn upp dómur í Hæstarétti Íslands í máli Landeigendafélags Geysis ehf. og íslenska ríkisins. Í málinu var deilt um heimildir landeigendafélagsins til þess að innheimta gjald af ferðamönnum inn á Geysissvæðið og gildi lögbanns sem sýslumaðurinn á Suðurlandi lagði á gjaldtökuna að kröfu íslenska ríkisins. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöður að ákvörðun um að áskilja greiðslu fyrir aðgang að svæðinu væri þess eðlis að fyrir henni hefði þurft samþykki allra eigenda sameignarlandsins umhverfis hverina, þ.e. landeigenda og íslenska ríkisins. Auk þess fengi ákvörðun um gjaldtöku ekki staðist án samþykkis ríkisins í ljósi þess að innan sameignarlandsins væri spilda sem tilheyrði ríkinu einu en svæðið, sem helstu hverirnir eru staðsettir á, er í séreign ríkisins. Hæstiréttur staðfesti því lögbannið og þá niðurstöðu héraðsdóms að landeigendafélaginu væri óheimilt að innheimta gjald af ferðamönnum inn á svæðið.

Dóm Hæstaréttar er að finna hér.

Ívar Pálsson hrl. fór með hagsmuni íslenska ríkisins í málinu en Jóna Björk Helgadóttir hrl. flutti málið í Hæstarétti sem sitt síðasta prófmál til öflunar málflutningsréttinda fyrir Hæstarétti.

Landslög veita alhliða lögfræðirágjöf á sviði fasteigna- og eignaréttar. Nánari upplýsingar um þjónustu Landslaga veitir Hildur Ýr Viðarsdóttir hdl. (hildur@landslog.is).