Hönnuðir Háskólans í Reykjavík sýknaðir

birt 7. júní 2019

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað nýverið upp dóm þar sem hönnuðir Háskólans í Reykjavík, Arkís arkitektar og danska arkitektastofan Henning Larsen Architects, voru sýknaðir af 250 milljóna króna bótakröfu Háskólans í Reykjavík. Bótakrafan var byggð á því að gallar væru á hönnun skólans sem m.a. leiddu til þess að hitastig í hinum ýmsu rýmum skólans væri óviðunandi, hávaði væri frá loftræstikerfi og sprungur hefðu myndast í steypu á gólfi skólabyggingarinnar. Héraðsdómur Reykjavíkur, sem m.a. var skipaður sérfróðum meðdómsmanni, taldi að mögulegar bótakröfur vegna meintra galla í hönnun skólahússins væru fyrndar. Því voru hönnuðirnir sýknaðir og þeim dæmdur málskostnaður að fjárhæð 5,6 milljónir króna. Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður á Landslögum, rak málið fyrir hönd hönnuða skólans.