Hópmálsóknir fyrir héraðsdóm

birt 24. ágúst 2017

Með dómum Hæstaréttar Íslands í gær lagði Hæstiréttur fyrir héraðsdóm að taka til efnismeðferðar þrjár hópmálsóknir sem málsóknarfélög hluthafa í Landsbanka Íslands hf. hafa höfðað á hendur Björgólfi Thor Björgólfssyni.

Í stefnum málsóknarfélaganna er byggt á því að Björgólfur Thor hafi valdið félagsmönnum tjóni með saknæmum hætti. Það hafi hann gert með því að stuðla að því að ekki voru veittar upplýsingar um áhættuskuldbindingar hans og yfirráð yfir Landsbanka Íslands hf.

Héraðsdómur hafði vísað málunum frá á þeim grundvelli að kröfur félagsmanna væru ekki nægilega einsleitar. Hæstiréttur féllst ekki á það og felldi úrskurði héraðsdóms úr gildi. Gera má ráð fyrir því að Björgólfi Thor verði nú gefinn hæfilegur frestur til að skila greinargerð í málunum.
Landslög hafa gætt hagsmuna málsóknarfélaganna.

Landslög hafa langa og farsæla reynslu af rekstri dómsmála. Nánari upplýsingar um þjónustu Landslaga vegna viðskipta með fyrirtæki veitir Hildur Ýr Viðarsdóttir, faglegur framkvæmdastjóri Landslaga og eigandi í síma 520-2900 eða í gegnum hildur@landslog.is.