Íslandsbanki hafði betur í fasteignagallamáli

birt 27. mars 2018

Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms í máli Golden Seafood Company ehf. gegn Íslandsbanka hf. og Jöfri ehf. Málið má rekja til deilu um galla í fasteigninni Eyrartröð 12 í Hafnarfirði. Golden Seafood Company ehf. höfðaði mál á hendur Íslandsbanka hf. og Jöfri ehf. til heimtu bóta vegna meintra galla á fasteigninni sem félagið hafði keypt af Íslandsbanka hf. fyrir milligöngu Jöfurs ehf. Í málinu byggði Golden Seafood Company ehf. í fyrsta lagi á því að skort hefði á að öll tæki og búnaður sem félagið taldi að hefðu átt að fylgja fasteigninni. Í öðru lagi byggði félagið á því að fasteignin hefði verið haldin galla vegna leka með þaki og á milligangi, en í þriðja lagi byggði félagið á því að það ætti rétt til bóta vegna þess óbeina tjóns sem félagið taldi sig hafa orðið fyrir vegna hinna meintu galla.

Héraðsdómur hafði áður sýknað Jöfur ehf. af kröfum Golden Seafood Company ehf. en féllst á bætur vegna þakgallans. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms vegna þakgallans en taldi að hafna bæri kröfu Golden Seafood Company ehf. um bætur vegna vöntunar á tækjum og búnaði, annars vegar með vísan til þess að félagið hefði ekki sinnt áskorun seljanda um skoðun fyrir kaupin og hins vegar með vísan til þess að Golden Seafood Company ehf. hefði ekki innan sanngjarns frests tilkynnt Íslandsbanka um vanefndina og að félagið hygðist bera hana fyrir sig. Þá hafnaði rétturinn kröfu Golden Seafood Company ehf. um bætur fyrir óbeint tjón með vísan til 1. mgr. 43. gr. laga um fasteignakaup nr. 40/2002. Var niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.

Hildur Ýr Viðarsdóttir, lögmaður á Landslögum, gætti hagsmuna Íslandsbanka hf.

Landslög veita alhliða lögfræðiráðgjöf á sviði fasteignaréttar. Nánari upplýsingar um þjónustu Landslaga eru veittar í síma 520-2900.