Landslög vekja athygli á tveimur áhugaverðum ráðstefnum

birt 26. september 2013

Föstudaginn 27. september verða haldnar tvær mjög áhugaverðar ráðstefnur sem lögmenn Landslaga taka þátt í.
Annars vegar standa Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, Samkeppniseftirlitið og Áfrýjunarnefnd samkeppnismála fyrir ráðstefnu í tilefni af 20 ára afmæli samkeppnislaga á Íslandi. Á ráðstefnunni munu um 30 erlendir og innlendir aðilar fjalla um samkeppnismál í litlu hagkerfi og þær áskoranir sem við blasa. Á ráðstefnunni mun Jóhannes Karl Sveinsson hrl. á Landslögum taka þátt í umræðum um endurreisn efnahagslífsins í kjölfar bankahrunsins og Jóna Björk Helgadóttir hdl. á Landslögum mun taka þátt í umræðum um varnaðaráhrif sekta í samkeppnislagabrotum. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má nálgast á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins.
Hins vegar mun Skýrslutæknifélag Íslands halda ráðstefnu um „Réttinn til að vita…“. Þar mun m.a. Hörður Helgi Helgason hdl. á Landslögum fjalla um birtingu persónuupplýsinga í dómum á Íslandi. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má nálgast á heimasíðu Ský.