Sýkna í málum vátryggingafélaga

birt 9. janúar 2019

Þann 28. desember 2018 kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp úrskurði og dóm í þremur dómsmálum, sem LBI ehf. höfðaði á hendur fyrrverandi stjórnendum Landsbanka Íslands hf. og enskum vátryggingafélögum, sem selt höfðu Landsbanka Íslands hf. svokallaða stjórnendatryggingu (Directors‘ & Officers‘ Liability Insurance) á árinu 2008.  Viðar Lúðvíksson og Hildur Ýr Viðarsdóttir, lögmenn hjá Landslögum, gættu hagsmuna vátryggingafélaganna í dómsmálunum, sem eru umfangsmestu einkamál, sem rekin hafa verið fyrir íslenskum dómstólum, en meðferð málanna fyrir héraðsdómi tók um 7 ár.  Í dómsmálunum hafði LBI ehf. uppi kröfur um greiðslu skaðabóta að fjárhæð samtals um 50 milljarða króna auk vaxta og kostnaðar.  Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði tveimur málanna frá dómi án kröfu en sýknaði vátryggingafélögin og aðra stefndu í því þriðja.