Umbjóðanda Landslaga dæmdar skaðabætur í Hæstarétti

birt 18. júní 2013

Með dómi sem kveðinn var upp þann 13. júní 2013 í máli nr. 9/2013 dæmdi Hæstiréttur Íslands Vátryggingafélag Íslands hf. til að greiða umbjóðanda Landslaga tæplega fjórar milljónir krónur auk vaxta og málskostnaðar vegna varanlegs miska og varanlegrar örorku sem rekja má til umferðarslyss sem hún varð fyrir á árinu 1999. Konan hafði árin 2002 og 2003 verið metin til 15 stiga miska og 15% varanlegrar örorku en með nýrri matsgerð, sem aflað var á árinu 2010, komust dómkvaddir matsmenn að þeirri niðurstöðu að konan hefði hlotið 25 stiga miska og 35% varanlega örorku í slysinu.

Ágreiningur aðila sneri annars vegar að því hvort skilyrðum 11. greinar skaðabótalaga nr. 50/1993 um endurupptöku líkamstjónamála væri fullnægt og hins vegar hvort skaðabótakrafa konunnar væri fyrnd. Skilyrði endurupptöku máls samkvæmt 11. gr. er að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að allar afleiðingar slyssins hefðu ekki verið metnir eins og skyldi í fyrri matsgerðum og að konan hefði fyrst á árinu 2009, þegar hún leitaði til heila- og taugalæknis, fengið vitneskju um að ástand hennar myndi ekki breytast til batnaðar. Taldi dómurinn að þá hafi hún fyrst átt þess kost að leita fullnustu kröfu um frekari bætur. Var krafa hennar því ekki fyrnd þegar málið var höfðað 6. nóvember 2009.

Mál þetta hefur mikið fordæmisgildi þar sem Hæstiréttur slær því föstu að 10 stiga og 10% hækkun á varanlegum miska og varanlegri örorku sé nægjanleg til að uppfylla skilyrði 11. gr. skaðabótalaga um verulega hækkun í merkingu laganna.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl. á Landslögum fór með málið fyrir hönd konunnar.