Verðtrygging dæmd lögmæt

birt 13. maí 2015

Í dag féll dómur í Hæstarétti þar sem tekist var á um það hvort ætti að ógilda verðtryggingu í fasteignaveðskuldabréfi. Lántaki hélt því fram að verðtryggingin og upplýsingagjöf við lánveitinguna hefðu verið í andstöðu við ákvæði samningalaga og tilskipanir ESB sem þau innleiða á Íslandi. Meðal annars reyndi á það hvort greiðsluáætlun um afborganir þar sem gert var ráð fyrir 0% verðbólgu væri ófullnægjandi.

Hæstiréttur hafnaði því að ógilda ætti verðtryggingarþátt lánsins. Meðal annars var bent á að almennur neytandi á Íslandi gæti ekki vænst þess að verðbólga yrði engin og að skýrt hefði komið fram í greiðsluáætluninni að miðað væri við óbreyttar verðlagsforsendur út lánstímann.

EFTA-dómstóllinn hafði áður veitt ráðgefandi álit í málinu og kom það nokkuð við sögu í dómi Hæstaréttar. Með þessum dómi er tekið á flestum álitaefnum varðandi gildi verðtryggingar.

Lögmenn Landslaga, þau Jóhannes Karl Sveinsson og Áslaug Árnadóttir önnuðust málið fyrir hönd Íslandsbanka, ráku það fyrir héraðsdómi, fyrir EFTA-dómstólnum og í Hæstarétti. Landslög veita lögfræðirágjöf á sviði samninga- og kröfuréttar. Nánari upplýsingar um þjónustu Landslaga veitir Hildur Ýr Viðarsdóttir hdl. (hildur@landslog.is)