Dómur Hæstaréttar um rétt vátryggðs til brunabóta

birt 15. ágúst 2022

Í júní síðastliðnum dæmdi Hæstiréttur í máli umbjóðanda Landslaga í ágreiningi við vátryggingarfélag um hvort félaginu væri heimilt að halda eftir brunabótum sem jafngiltu hlutfalli virðisaukaskatts. Í stuttu máli var umbjóðandi stofunnar eigandi fasteignar sem varð eldi að bráð þann 31. maí 2017 og gjöreyðilagðist. Vátryggingarfélagið taldi sér einungis skylt að greiða fasteignareigandanum rúmar 91 milljón krónur í brunabætur vegna tjónsins. Afstaða félagsins byggði m.a. á því að félagið mætti skerða bætur um helming vegna ófullnægjandi brunavarna, að ekki kæmi til greiðslu bóta vegna ruðnings brunarústanna, að ekki kæmi til greiðslu bóta sem jafngilti hlutfalli virðisaukaskatts o.fl. Þá mat félagið umfang tjónsins vera u.þ.b. 182 milljónir króna. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem Landsréttur staðfesti í nóvember 2021, var komist að þeirri niðurstöðu að réttur umbjóðanda Landslaga til brunabóta næmi rúmlega 163 milljónum króna. Í dómum héraðs og Landsréttar kemur m.a. fram að vátryggingarfélaginu væri óskylt að greiða fasteignareigandanum bætur sem jafngiltu virðisaukaskatti af endurbyggingu fasteignarinnar.
Umbjóðandi Landslaga óskaði eftir því við Hæstarétt að hann fengi leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar. Hæstiréttur veitti áfrýjunarleyfi fyrir þeim þætti málsins er sneri að virðisaukaskattinum af brunabótum. Þann 22. júní sl. kvað Hæstiréttur upp dóm sem féll umbjóðanda Landslaga í vil. Með dóminum hafnaði rétturinn sjónarmiðum vátryggingarfélagsins um að fasteignareigandanum hefði borið að gera sérstakar ráðstafanir, hvort heldur fyrir eða eftir eldsvoðann, til að uppfylla lagaskilyrði til að nýta og viðhalda innskattsfrádrætti vegna endurbyggingar hússins. Af þeirri ástæðu yrði ákvæði í skilmálum vátryggingarfélagsins ekki skilið svo að á fasteignareigandanum hefði hvílt sérstök athafnaskylda til að gangast undir íþyngjandi kvaðir sem s.k. frjáls skráning hefði í för með sér áður en endurbygging hófst. Var því fallist á með umbjóðanda Landslaga að ekki skyldi tekið tillit til lögbundins afreiknings vegna virðisaukaskatts við ákvörðun um vátryggingarbætur til eigandans vegna brunatjóns á fasteigninni. Var því fallist á með fasteignareigandanum að réttur hans til brunabóta næmi 202.852.875 krónum. Er um að ræða 120,5% hærri bætur en þær sem vátryggingarfélagið bauð í öndverðu.
Dómur Hæstaréttar er fordæmisgefandi um stöðu fasteignareigenda ef tjón af völdum elds atvikast.
Styrmir Gunnarsson lögmaður flutti málið í Hæstarétti og Sveinbjörn Claessen lögmaður fyrir héraðsdómi og Landsrétti. Báðir eru þeir í eigendahópi Landslaga.