Fallist á afsláttarkröfu Eirbergs ehf. vegna galla á verki við vefsíðugerð

birt 1. apríl 2020

Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 31. mars sl. var fallist á afsláttarkröfu Eirbergs ehf. að fjárhæð um 6,8 milljónir króna, með dráttarvöxtum frá 21. ágúst 2017, á hendur vefhönnunarfyrirtækinu Kosmos og Kaos vegna galla á verki fyrirtækisins við hönnun og forritun nýs vefs Eirbergs ehf.; www.eirberg.is. Héraðsdómur taldi sannað með niðurstöðu matsgerðar dómkvadds matsmanns, sem Eirberg ehf. aflaði fyrir málshöfðunina, að umsamið verk hefði hvorki haft þá eiginleika, sem því hafði verið ætlað við samningsgerð, né því sem almennt mátti ætla. Verkið teldist því gallað. Þá lagði héraðsdómur til grundvallar niðurstöðu dómkvadds matsmanns um sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir vinnu Kosmos og Kaos og féllst á að Eirberg ehf. ætti rétt á afslætti sem næmi stefnufjárhæð. Að lokum var Eirbergi ehf. dæmdur málskostnaður að fjárhæð kr. 2.480.000.

Jón Gunnar Ásbjörnsson, lögmaður á Landslögum, rak málið fyrir hönd Eirbergs ehf.