Fallist á kröfu á hendur Secret Solstice

birt 2. mars 2021

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar sl. var fallist á kröfu K2 Agency Limited („K2“), umboðsfyrirtækis bandarísku þungarokkhljómsveitarinnar Slayer, á hendur núverandi rekstraraðilum Secret Solstice tónlistarhátíðarinnar, Live Events ehf., Lifandi Viðburðum ehf. og L Events ehf. („L-félögin“), auk eiganda þeirra, vegna eftirstöðva þóknunar Slayer fyrir að koma fram á hátíðinni í júní 2018 sem haldin var á vegum Solstice Productions ehf. Í dómi héraðsdóms er fallist á þann málatilbúnað K2 að framkvæmdastjóri Live Events ehf. hafi með yfirlýsingu í fjöl­miðlum skuldbundið félagið til að greiða kröfu K2 á hendur Solstice Pro­duct­ions ehf. Þá er fallist á málflutning K2 sem byggði á því að Lifandi Viðburðir ehf., L Events ehf. og eigandi allra félaganna bæri ábyrgð á greiðslu áðurnefndri kröfu á grundvelli reglna félagaréttar um skaðabætur og samsömun. Segir í dómi héraðsdóms að svo náin stjórnunartengsl hafi verið milli Sol­stice Productions ehf. annars vegar og L-félaganna hins vegar að samsama verði þau síðarnefndu hinu fyrrnefnda og líta á þau sem móðurfélag Solstice Productions ehf. Þar eð fjárhagur Solstice Productions ehf. hafi verið svo bágur að félagið stefndi í gjaldþrot hafi verið sak­næmt og ólögmætt að ráðstafa hags­munum þess til L-félaganna, enda hafi með því verið bornir fyrir borð hags­munir K2 og annarra kröfu­hafa Solstice Productions ehf. í sömu stöðu.

Voru allir stefndu dæmd til að greiða stefnufjárhæð, 133.273,45 bandaríkjadali, með dráttarvöxtum, auk málskostnaðar að fjárhæð kr. 2.700.000. Framkvæmdastjóri Solstice Productions ehf. hafði í héraðsdómi áður verið dæmdur til að greiða sömu kröfu á grundvelli persónulegs greiðsluloforðs sem hann gaf K2 í tölvupósti.

Jón Gunnar Ásbjörnsson, lögmaður á Landslögum, rak málin fyrir hönd K2 Agency.