Fékk dæmdar bætur vegna snjóflóðs

birt 14. febrúar 2019

Umbjóðandi Landslaga slasaðist í snjóflóði og hlaut varanlegan skaða af. Vátryggingafélag mannsins hafnaði bótaskyldu úr frítímaslysatryggingu mannsins með vísan til þess að í skilmálum félagsins kom fram að tjón af völdum snjóflóða og annarra náttúruhamfara fengist ekki bætt.

Umbjóðandi Landslaga var ósammála afstöðu vátryggingafélagsins og skaut máli sínu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Úrskurðarnefndin féllst ekki á málatilbúnað umbjóðanda Landslaga og taldi hann ekki eiga rétt til bóta.

Umbjóðandinn lét reyna á málið og höfðaði mál á hendur vátryggingafélaginu. Þar eins og á fyrri stigum var á því byggt að umrætt snjóflóð teldist ekki til náttúruhamfara, enda hafði umbjóðandi Landslaga og samferðarmaður hans í raun ýtt flóðinu af stað þegar þeir gengu um fjallshlíðina. Flóðið fór því af stað af mannavöldum en ekki fyrir tilstilli náttúruafla. Þá var sömuleiðis byggt á að ákvæðið í skilmálum félagsins sem undanskildi snjóflóð og aðrar náttúruhamfarir væri mjög óskýrt og vátryggingafélagið yrði að bera hallann af þeim óskýrleika.

Héraðsdómur Reykjavíkur tók undir málatilbúnað umbjóðanda Landslaga. Í forsendum dómsins er m.a. tekið fram að flóðið hafi farið af stað af mannavöldum og í samræmi við skýringar starfsmanns Snjóflóðaseturs Veðurstofu Íslands teljist snjóflóð eins og það sem umbjóðandi Landslaga lenti í ekki til náttúruhamfara. Þá féllst dómurinn sömuleiðis á að ákvæði skilmála sem vátryggingafélagið byggði afstöðu sína á væri óskýrt og vátryggingafélagið yrði að bera hallann af því.

Mál þetta hefur vakið nokkra athygli enda eru atvik þess sérstök sem og þau lögfræðilegu álitaefni sem reyndi á við úrlausn þess. Hér að neðan eru tenglar á dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu, auk umfjöllunar á fréttamiðlinum Visir.is og Kastljósþátt þar sem málið var tekið til sérstakrar umfjöllunar og rætt við umbjóðanda Landslaga.

https://www.heradsdomstolar.is/domar/domur/?id=ab2b63ae-3f1e-4a46-b55e-02a221336465

http://www.visir.is/g/2019190209083

http://www.ruv.is/frett/tjon-ekki-baett-eftir-snjoflod-a-fjallaskidum

 

Styrmir Gunnarsson lögmaður flutti málið fyrir hönd umbjóðanda Landslaga.