Gerðardómur úrskurðar að Elkem beri að greiða hærra raforkuverð

birt 31. maí 2019

Gerðardómur hefur komist að þeirri niðurstöðu að Elkem, eiganda járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, beri að greiða Landsvirkjun hærra raforkuverð. Verksmiðjan hóf starfsemi á Grundartanga árið 1979. Smningur fyrirtækisins við Landsvirkjun var upphaflega til 40 ára og átti því að renna út í ár. Í samningnum er að finna ákvæði sem heimilar Elkem að framlengja gildistímann um áratug. Það ákvæði nýtti fyrirtækið sér og samhliða var ákvörðun um rafmagnsverð sem greiða skuli Landsvirkjun vísað til gerðardóms. Í niðurstöðu gerðardómsins felst að Elkem greiðir Landsvirkjun umtalsvert hærra raforkuverð en áður. Elkem er fjórði stærsti viðskiptavinur Landsvirkjunar og því er um verulegar fjárhæðir að ræða. Landslög voru Landsvirkjun til ráðgjafar við gerðardómsmeðferðina og flutti Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður málið fyrir hönd Landsvirkjunar.