Hæstiréttur snýr við dómum um uppgreiðslugjald

birt 27. maí 2021

Hæstiréttur kvað í dag upp dóma í tveimur málum sem lántakar höfðuðu gegn ÍL-sjóði (áður Íbúðalánasjóði). Í málunum var deilt um heimild sjóðsins til að krefja lántaka um þóknun vegna uppgreiðslu húsnæðislána þegar þau greiddu lánin upp fyrir gjalddaga.
Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 3/2021 var ekki fallist á það með lántökum að ákvæði þeirra reglugerða sem ÍL-sjóður reisti rétt sinn til að innheimta uppgreiðslugjald á skorti lagastoð. Þá taldi rétturinn að lántakarnir hefðu með fullnægjandi og bindandi hætti afsalað sér rétti til uppgreiðslu lánsins án greiðslu þóknunar. Loks var ekki talið koma til álita að ákvæði ÍLS-veðbréfsins yrðu metin ógild á grundvelli meginreglu samningaréttar um ógildi ólögmætra löggerninga, að þeim yrði vikið til hliðar, né að ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju væri fyrir ÍL-sjóð að bera þau fyrir sig. Var ÍL-sjóður því sýknaður af kröfum lántakanna.
Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 4/2021 segir að forsendur héraðsdóms hafi að stærstum hluta verið umfjöllun um málsástæðu sem sneri að því hvort nánar tilgreind ákvæði reglugerða hefðu átt sér fullnægjandi lagastoð í heimildarákvæði laga nr. 44/1998 um húsnæðismál en þeirri málsástæðu hefði hvergi séð stað í stefnu til héraðsdóms og virtist úrlausn dómsins að mestu leyti reist á henni auk ætlaðs brots á lögum nr. 121/1994 án þess þó að þar væri greint á milli. Var tekið fram að samkvæmt 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 mætti dómari ekki byggja niðurstöðu sína á málsástæðum sem hefðu mátt koma fram við meðferð máls en gerðu það ekki. Taldi Hæstiréttur óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.
Hæstiréttur veitti leyfi til að áfrýja báðum málunum beint til réttarins. Sjö dómarar sátu í dómnum.
Áslaug Árnadóttir hæstaréttarlögmaður flutti málið fyrir hönd ÍL-sjóðs.