Isavia sýknað af kröfum Drífu

birt 13. október 2021

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur í annað sinn kveðið upp dóm í máli Drífu ehf. gegn Isavia ohf. Héraðsdómur sýknaði Isavia upphaflega af öllum kröfum Drífu en Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að taka þyrfti málið aftur til meðferðar þar sem héraðsdómur þyrfti að vera skipaður sérfróðum meðdómsmönnum.
Í málinu krafðist Drífa skaðabóta að fjárhæð um 1,5 milljarður króna, meðal annars á þeim grundvelli að valnefnd á vegum Isavia hefði með ólögmætum og saknæmum hætti hafnað tilboði Drífu í forvali á verslunar- og veitingaþjónustu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar árið 2014.
Fjölskipaður héraðsdómur sýknaði Isavia af öllum kröfum Drífu. Dómurinn hafnaði því að Drífa hefði átt hagstæðasta tilboðið og komst að þeirri niðurstöðu að valnefndin hefði réttilega metið boð Drífu sem óraunhæft og óhagkvæmt fyrir Isavia. Þá var því sömuleiðis hafnað að valnefndin hefði í störfum sínum borið fyrir sig ómálefnaleg sjónarmið eða gerst sek um ólögmæta og saknæma háttsemi í störfum sínum. Þá taldi dómurinn að skipulag og framkvæmd forvalsins hefði verið gagnsætt, að jafnræði milli þátttakenda í forvalinu hefði verið tryggt, valnefndin hefði stuðst við forsendur í forvalsgögnum fyrir vali á tilboðum og verið sjálfstæð í mati sínu á tilboðum.
Hlynur Halldórsson lögmaður flutti málið fyrir hönd Isavia.