Isavia sýknað af kröfum Hópbifreiða Kynnisferða

birt 16. júní 2021

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 16. júní s.l. var Isavia sýknað af kröfum Hópbifreiða Kynnisferða um breytingar á samningi félaganna um aðstöðu hópbifreiða við Leifsstöð, sem og kröfum um viðurkenningu á skaðabótaskyldu Isavia vegna meintrar ólögmætrar mismununar og vanefnda á umræddum samningi.
Byggðu kröfur Hópbifreiða Kynnisferða á því að tilhögun gjaldtöku Isavia á svokölluðum fjarstæðum við flugstöðina hefðu raskað forsendum fyrir rekstrarleyfissamningi Isavia við Hópbifreiða Kynnisferða um nýtingu aðstöðu á nærstæðum flugstöðvarinnar. Héraðsdómur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að tilhögun gjaldtöku Isavia af notendum fjarstæða hefði ekki verið ósanngjörn í garð Hópbifreiða Kynnisferða og hafnaði því kröfum fyrirtækisins þar að lútandi. Þá hafnaði héraðsdómur því að eitthvað hafi verið aðfinnsluvert við tilhögun útboðs á nærstæðum flugstöðvarinnar. Að síðustu var staðfest að Isavia fellur ekki undir ákvæði stjórnsýslulaga og þar af leiðandi var málsástæðum Hópbifreiða Kynnisferða á þeim grundvelli hafnað.
Fyrir hönd Isavia rak Hlynur Halldórsson lögmaður málið.