Íslandsbanki sýknað af kröfum LS retail

birt 14. febrúar 2019

LS retail höfðaði mál á hendur Norðurturninum, Íslandsbanka og til réttargæslu Annata og Reginn. LS retail krafðist þess að ákvörðun stjórnar Norðurturnsins sem heimilaði Íslandsbanka að setja vörumerki sitt á turninn yrði dæmd ógild. Þá krafðist LS retail þess einnig að viðurkenndur yrði réttur þess til að setja vörumerki sitt einnig á turninn og þá ofar en merki Íslandsbanka en til vara að merki Íslandbanka á turninum yrði fjarlægt.

Héraðsdómur féllst ekki á kröfur LS retail sem áfrýjaði dóminum. Landsréttur komst að sömu niðurstöðu í síðustu viku. Taldi rétturinn að LS retail gæti ekki átt aðild að kröfu um ógildingu ákvörðunar stjórnar annars félags. Af 1. mgr. 96. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög verður ráðið að ekki geti aðrir en hluthafar félags, stjórnarmenn eða framkvæmdastjóri höfðað mál til ógildingar ákvörðun stjórnar félagsins.

Í leigusamningi LS retail og Norðurturnsins var sérstakt ákvæði um merkingar á húsinu en þar sagði að leigutaka væri ekki heimilt að merkja sér húsið að utanverðu nema með sérstöku samkomulagi við leigusala, m.a. um gjald, stærð og staðsetningu og eftir atvikum að fengnu samþykki byggingaryfirvalda. LS retail vildi víkja þessu ákvæði til hliðar með vísan til 36. gr. samningalaga en á það var ekki fallist. Þá féllst rétturinn ekki á aðrar málsástæður LS retail.

Var því Íslandsbanki og Norðurturninn sýknuð af kröfum LS retail.

Hildur Ýr Viðarsdóttir lögmaður hjá Landslögum gætti hagsmuna Íslandsbanka í málinu.