Kröfum um ógildingu á framkvæmdaleyfi vísað frá og hafnað

birt 27. apríl 2020

Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 51/2019 var vísað frá kröfum nokkurra eigenda Seljaness um ógildingu á framkvæmdaleyfi Vesturverks vegna lagfæringa á Ófeigsfjarðarvegi. Talið var að þeir ættu ekki lögvarinna hagsmuna að gæta. Að auki var kröfum annarra kærenda, eigenda að Eyri, um ógildingu leyfisins hafnað.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta almennt þeir einir, sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta, kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar. Þetta ákvæði er skýrt í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að viðkomandi eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og að þeir hagsmunir séu verulegir. Í úrskurðinum kom fram að almennt verði að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að lögvarða hagsmuni skorti, nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæft gildi fyrir lögverndaða hagsmuni viðkomandi að fá leyst úr þeim ágreiningi sem stendur að baki kærumálinu.

Eftir nánari athugun nefndarinnar var niðurstaða hennar að kæruaðild kærenda, sem eiga hlut í Seljanesi, yrði hvorki byggð á eignarréttarlegum grunni né grenndarhagsmunum. Var kröfum þeirra vísað frá úrskurðarnefndinni. Hvað varðar eigendur að Eyri voru þeir taldir eiga lögvarða hagsmuni, þar sem vegurinn liggur í gegnum verksmiðjuhús í þeirra eigu. Framkvæmdaleyfið var ekki talið haldið annmörkum sem leitt gætu til ógildingar þess og var kröfum þeirra því hafnað.

Ívar Pálsson og Sigurgeir Valsson, lögmenn á Landslögum, ráku málið fyrir hönd Vesturverks ehf.