Landslög 50 ára

birt 1. júní 2021

Í dag, 1. júní 2021, eru liðin 50 ár frá því að Garðar Garðarsson, þá nýútskrifaður lögfræðingur, opnaði lögmannsstofu í Keflavík. Frá 1. júní 1971 rak Garðar lögfræðistofuna að mestu einn og óstuddur en í maímánuði 1977 réð hann til sín ungan fulltrúa, Vilhjálm H. Vilhjálmsson, sem síðar varð meðeigandi hans að stofunni um áratugaskeið. Upp frá því var stofan rekin undir nafninu Lögmenn Garðar og Vilhjálmur. Þrjátíu árum eftir stofnun stofunnar, árið 2001, voru eigendur hennar orðnir fimm og var nafni hennar þá breytt í Landslög. Eigendur Landslaga er nú 15 en alls starfa þar 27 starfsmenn. Garðar ákvað að láta af störfum að loknum vinnudegi í gær, eftir 50 ára farsælt starf, upp á dag.

Starfsferill Garðars Garðarssonar er bæði glæsilegur og farsæll. Í þá hálfu öld sem hann hefur sinnt lögmannsstörfum hefur hann eðli málsins samkvæmt komið víða við og m.a. verið í stjórn Lögmannafélags Íslands, setið í nefnd til undirbúnings aðskilnaðar dómsvalds og umboðsvalds í héraði frá 1989 til 1992, var formaður Kjaradóms frá 1997 og hefur auk þess setið í stjórnum margra fyrirtækja, einkum hugbúnaðarfyrirtækja og sjávaraútvegsfyrirtækja. Þá hefur Garðar flutt mörg stefnumarkandi dómsmál, m.a. á sviði sjávarútvegs.

Í tilefni dagsins fóru starfsmenn Landslaga að eldgosinu í Geldingadal, enda þótti við hæfi að fagna afmælinu á Reykjanesi og heiðra góðan félaga.