Landsréttur úrskurðar að Isavia ohf. er heimilt að aftra för farþegaþotu

birt 3. júní 2019

Þann 28. mars 2019 neytti Isavia ohf. heimildar í 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga nr. 60/1998 og aftraði för farþegaþotu í eigu bandaríska leigufélagsins ALC A321 7237 til tryggingar öllum skuldum Wow air hf., sem var leigutaki og umráðandi farþegaþotunnar, við Isavia ohf. vegna starfsemi Wow air hf. á Keflavíkurflugvelli.  ALC krafðist fyrir héraðsdómi að farþegaþotan yrði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum Isavia og afhent ALC. Héraðsdómur hafnaði kröfu ALC en með þeim forsendum að farþegaþotan stæði einungis til tryggingar litlum hluta skulda Wow air við Isavia.

Isavia kærði niðurstöðu héraðsdóms til Landsréttar. Í úrskurði réttarins þann 24. maí 2019 var fallist á sjónarmið Isavia um að 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga væri ætlað að þvinga eiganda eða umráðanda farþegaþotunnar til að greiða hvers kyns gjöld fyrir þjónustu sem eigandi þotunnar eða Wow air hefði þegið af Isavia sem starfrækir flugvöll og flugleiðsöguþjónustu. Engar takmarkanir væri að finna í ákvæðinu á umfangi gjalda sem heimilt væri að þvinga fram greiðslur á með því að aftra för farþegaþotunnar eða hversu lengi vanskil mættu hafa staðið. Þá yrði ekki ráðið af ákvæðinu að samningar við umráðanda farþegaþotunnar um greiðslufrest á vangreiddum gjöldum gætu komið í veg fyrir beitingu greiðsluþvingunar gagnvart eiganda þess.

Landslög voru til ráðgjafar við beitingu ákvæðis loftferðlaga og við rekstur innsetningarmálsins fyrir héraðsdómi og Landsrétti. Hlynur Halldórsson lögmaður flutti málið fyrir hönd Isavia ohf.