Sigur í Landsréttarmáli

birt 12. febrúar 2021

Hæstiréttur kvað þann 11. febrúar sl. upp dóma í málum Eiríks Jónssonar og Jóns Höskuldssonar en málin höfðuðu þeir til heimtu skaðabóta vegna embættisfærslu þáverandi dómsmálaráðherra við skipun dómara í Landsrétt. Héraðsdómur hafði fallist á kröfur um skaðabætur en meirihluti Landsréttar sneri þeirri niðurstöðu við. Í dómum Hæstaréttar kemur fram að dómsmálaráðherra viðhafði bótaskylda háttsemi þegar hún lagði til við Alþingi að fjórir einstaklingar, sem ekki voru á lista dómnefndar yfir 15 hæfustu umsækjendur um embættin, yrðu skipaðir dómarar án fullnægjandi rannsóknar og án þess að veita þeim fjórum einstaklingum andmælarétt sem færðir voru af listanum. Þá taldi Hæstiréttur að sýnt hefði verið fram á tjón Eiríks og Jóns af völdum ákvörðunar ráðherra og dæmdi því íslenska ríkið skaðabótaskylt. Grímur Sigurðsson lögmaður gætti hagsmuna Eiríks Jónssonar í málinu.