Skaðabætur dæmdar vegna útboðs á byggingu GAJA

birt 20. desember 2021

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 20. desember 2021 var komist að þeirri niðurstöðu að Sorpa bs. hefði brotið lög um opinber innkaup nr. 120/2016 í innkaupaferli sínu vegna byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar á Álfsnesi (GAJA) og að Sorpu bæri af þeim sökum að greiða umbjóðanda Landslaga, Íslenskum aðalverktökum, skaðabætur. Í dóminum kom fram að í tilboði Ístaks hf., sem hlaut verkið, hefðu verið frávik sem haft hefðu þýðingu við mat á tilboðum bjóðenda. Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að Sorpa hefði brotið reglur laga um opinber innkaup um jafnræði bjóðenda og gagnsæi við innkaupin með því að leggja ekki mat á virði frávikanna og greina hvort þau hefðu breytt röð tilboða. Þá komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að Íslenskir aðalverktakar hefðu sýnt nægilega fram á að félagið hefði fengið verkið ef brot Sorpu hefði ekki komið til. Var Sorpu bs. því gert að greiða Íslenskum aðalverktökum skaðabætur vegna missis þess hagnaðar sem félagið fór á mis við af því að fá ekki verkið vegna brota Sorpu í innkaupaferlinu.
Hagsmuna Íslenskra aðalverktaka gættu lögmennirnir Jóhannes Karl Sveinsson og Magnús I. Magnússon.