Skaðabætur vegna fasteignagalla sem áður hafði verið dæmt um en ekki lagfærður

birt 7. apríl 2022

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað nýverið upp dóm þar sem kaupanda fasteignar voru dæmdar bætur úr hendi erfingja seljanda fasteignar vegna skorts á upplýsingum við sölu fasteignarinnar. Í málinu lá fyrir að kaupandi hafði ekki fengið upplýsingar um eldra matsmál og dómsmál sem húsfélagið hafði staðið í vegna m.a. galla á klæðningu fjöleignarhússins. Hæstiréttur hafði 12 árum fyrir söluna dæmt húsfélaginu bætur úr hendi þess verktaka sem byggði húsið. Húsfélagið hafði hlutast til um einhverjar endurbætur á húsinu en ekki skipt út klæðningunni sem Hæstiréttur hafði dæmt ónýta. Seljandi upplýsti ekki um þessi málaferli né málalok. Skömmu eftir að kaupandi flutti inn í fasteignina var tekin ákvörðun á húsfundi um að ráðast í endurnýjun klæðningarinnar og nam hlutur kaupanda rúmum 7 milljónum króna. Fékk kaupandi megnið af þeirri fjárhæð dæmda úr hendi erfingja seljanda fasteignarinnar.
Fyrir hönd kaupanda flutti málið Hildur Ýr Viðarsdóttir hæstaréttarlögmaður.