Unnur Lilja, Jón Gunnar og Sveinbjörn bætast í hóp eigenda

birt 14. janúar 2020

Þrír lögmenn hafa gengið inn í eigendahóp Landslaga lögfræðistofu, þau Unnur Lilja Hermannsdóttir, Jón Gunnar Ásbjörnsson og Sveinbjörn Claessen. Öll hafa þau starfað um árabil á Landslögum við góðan orðstír. Með breytingunni styrkist verulega eigendahópur Landslaga.

Unnur lauk lagaprófi frá Háskólanum í Reykjavík árið 2012 en hóf störf með námi hjá Landslögum árið 2011. Hún hlaut málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi árið 2012. Helstu starfssvið Unnar eru á sviði fjármálaréttar og fyrirtækjaráðgjafar, þar með talið vegna félaga-, samkeppnis- og samningaréttarlegra málefna og hefur Unnur komið að gerð fjölda áreiðanleikakannana í tengslum við kaup og sölu fyrirtækja. Unnur hefur einnig sinnt ráðgjöf innan stjórnsýslunnar, meðal annars á sviði fjarskipta- og barnaréttar. Unnur sinnir ýmsum nefndarstörfum; er meðal annars formaður skólanefndar Menntaskólans við Hamrahlíð og varamaður í hæfnisnefnd lögreglu, og hefur einnig sinnt stundakennslu í kröfurétti við Háskólann í Reykjavík. Unnur er í sambúð með Tómasi Magnúsi Þórhallssyni lögmanni og saman eiga þau þriggja mánaða dóttur.

Jón Gunnar lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands vorið 2011 og hóf störf á Landslögum síðar sama ár. Áður en Jón Gunnar hóf störf hjá Landslögum hafði hann starfað á lögmannsstofunni BBA-Legal frá árinu 2010. Jón Gunnar hlaut málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi árið 2012 og fyrir Hæstarétti árið 2018. Hann hefur setið í laganefnd Lögmannafélag Íslands frá árinu 2017. Helstu sérsvið Jóns Gunnars eru hugverkaréttur, félagaréttur, samningaréttur og málflutningur fyrir dómstólum. Jón Gunnar hefur skrifað þrjár ritrýndar fræðigreinar fyrir lögfræðitímarit, eina á sviði höfundaréttar og tvær á vettvangi réttarfars. Jón Gunnar er í sambúð með Nínu Guðríði Sigurðardóttur lögmanni og á þriggja ára dóttur.

Sveinbjörn hóf störf á Landslögum árið 2010 með laganámi. Sveinbjörn lauk meistaranámi frá lagadeild Háskólans í Reykjavík vorið 2012 og öðlaðist réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi síðar sama ár. Í maí 2019 öðlaðist Sveinbjörn réttindi til málflutnings fyrir Landsrétti. Helstu starfssvið Sveinbjörns eru skaðabótaréttur, kröfuréttur, verktaka- og útboðsréttur og málflutningur fyrir dómstólum. Þá hefur Sveinbjörn sinnt kennslu við Endurmenntun HÍ í verktaka- og útboðsrétti og skrifað ritrýnda fræðigrein á vettvangi skaðabótaréttar. Sveinbjörn á að baki langan og farsælan feril í körfuknattleik með ÍR. Sveinbjörn er í sambúð með Sigríði Huldu Árnadóttur hjúkrunarfræðingi.