Íslenska ríkið sýknað af kröfum um greiðslu vaxta í Geysismáli.

birt 5. maí 2020

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag íslenska ríkið af kröfu seljenda lands við Geysi í Haukadal um greiðslu vaxta af kaupverðinu. Ríkið samdi um kaup á landinu árið 2016 og skyldi kaupverðið ákveðið með matsgerð dómkvaddra matsmanna. Matsmenn skiluðu niðurstöðu sinni árið 2017 og óskaði íslenska ríkið eftir yfirmatsgerð. Lá hún fyrir í apríl 2019 og greiddi íslenska ríkið þá kaupverðið. Seljendur landsins höfðuðu í kjölfarið dómsmál og kröfðust vaxta og verðbóta af kaupverðinu frá því kaupsamningurinn var gerður. Í dómi héraðsdóms kemur fram að við kaupsamningsgerðina hafi aðilar notið aðstoðar reyndra lögmanna og því hafi aðilum samningsins mátt vera ljóst að sú aðferð, sem notuð var til að ákvarða kaupverðið, gæti tekið nokkurn tíma. Því væru aðstæður ekki það sérstakar og afbrigðilega að réttlættu að skýra texta kaupsamningsins þannig að kaupverðið skyldi bera vexti, en ekkert ákvæði um greiðslu vaxta var að finna í kaupsamningnum. Þá taldi héraðsdómur jafnframt að matsmenn hefðu farið út fyrir matsspurningar þegar þeir tóku fram í niðurstöðum sínum að kaupverðið skyldi bera tiltekna vexti.

Af hálfu íslenska ríkisins flutti Ívar Pálsson hrl. málið.