Dæmdar miskabætur í landsréttarmálum

birt 19. desember 2017

Hæstiréttur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða umbjóðendum Landslaga, þeim Ástráði Haraldssyni og Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni, hvorum um sig samtals 700.000 kr. í miskabætur í landsréttarmálunum svonefndu. Rétturinn sýknaði íslenska ríkið af kröfu um viðurkenningu á skaðabótum.

Þetta er niðurstaða Hæstaréttar í tveimur dómum sem kveðnir voru upp í dag. Dómana má lesa hér og hér. Jóhannes Karl Sveinsson hrl. og Jón Gunnar Ásbjörnsson hdl., lögmenn hjá Landslögum, fluttu málin fyrir réttinum.

Umbjóðendur Landslaga voru meðal 33 umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt og meðal þeirra 15 sem dómnefnd samkvæmt lögum um dómstóla hafði talið meðal hæfustu til að gegna því embætti.

Þegar Sigríður Á. Anderseen dómsmálaráðherra gerði tillögu til Alþingis um þá 15 umsækjendur sem skipa skyldi dómara vék ráðherra frá niðurstöðum nefndarinnar varðandi fjóra umsækjendur og voru Ástráður og Jóhannes ekki á meðal þeirra sem lagt var til að yrðu skipaðir.

Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að það væri óskráð meginregla að stjórnvaldi sem skipar í opinbert starf eða embætti beri hverju sinni að velja hæfasta umsækjandann. Áður hefði sú skylda hvílt á ráðherra dómsmála að sjá til þess að þau atriði sem máli skiptu við það mat væru nægjanlega upplýst. Við gildistöku reglna um dómnefndir til að meta hæfni umsækjenda um dómaraembætti hefði þeirri rannsóknarskyldu hins vegar að verulegu leyti verið létt af ráðherra og þess í stað lögð á herðar sjálfstæðrar og óháðrar dómnefndar. Samkvæmt því hefði verið lagt til grundvallar í dómaframkvæmd að ef dómsmálaráðherra gerði tillögu til Alþingis um að vikið yrði frá áliti dómnefndar, væri óhjákvæmilegt að sú ákvörðun væri reist á frekari rannsókn ráðherrans eftir 10. gr. stjórnsýslulaga.

Að þessu gættu taldi Hæstiréttur ljóst að dómsmálaráðherra hefði að lágmarki borið að gera samanburð á hæfni annars vegar þeirra fjögurra umsækjenda sem dómnefndin hafði metið meðal 15 hæfustu en ráðherra ekki gert tillögu um og hins vegar þeirra fjögurra umsækjenda sem ráðherra gerði tillögu um í þeirra stað. Gögn málsins bæru á hinn bóginn ekki með sér að slík rannsókn hefði farið fram af hálfu ráðherra. Samkvæmt því hefði málsmeðferð hans verið andstæð 10. gr. stjórnsýslulaga og af því leiddi að það sama ætti við um meðferð Alþingis á tillögu ráðherra þar sem ekki hefði verið bætt úr þeim annmörkum sem málsmeðferð ráðherra var haldin.