Hæstiréttur dæmir flugfreyju skaðabætur

birt 30. janúar 2015

Hæstiréttur hefur dæmt flugfreyju, sem slasaðist um borð í flugvél Icelandair, skaðabætur. Byggir niðurstaða dómsins á því að Icelandair hafi vanrækt tilkynningaskyldu sína vegna flugatviksins og því hafi ekki farið fram rannsókn á því hvort rekja mætti slys flugfreyjunnar til saknæmrar háttsemi flugstjórnenda flugvélarinnar umrætt sinn eða óhappatilviks. Taldi Hæstiréttur því alls óljóst um hvort flugstjórnendur hafi sýnt af sér gáleysi áður en ákveðið var að taka sjálfstýringu vélarinnar af eða brugðist rétt við aðstæðum að öðru leyti. Á grundvelli framangreinds taldi Hæstiréttur að leggja yrði sönnunarbyrði um orsök slyss flugfreyjunnar á Icelandair og var félagið því látið bera halla af sönnunarskortinum.

Landslög fóru með málið í Hæstarétti fyrir flugfreyjuna sem slasaðist. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður annaðist málflutninginn.