Sýknað í meiðyrðamáli

birt 23. nóvember 2017

Héraðsdómur Vestfjarða sýknaði nýverið einn eigenda ferðaþjónustufyrirtækis á Vestfjörðum af kæru um meiðyrði sem lögð var fram af öðru ferðaþjónustufyrirtæki á svæðinu vegna umfjöllunar mbl.is um meintan veiðiþjófnað í Hornvík á Hornströndum árið 2016.

Upphaf málsins má rekja til þess að eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins og umbjóðandi Landslaga kom að þremur mönnum í neyðarskýli í Hornvík þar sem þeir voru með vopn og önnur veiðitæki. Skammt frá lá selshræ í fjöru sem vaktað var með hreyfimyndavél sem sendi frá sér merki til mannanna sem voru búnir byssum, háfum, netum og veiðistöngum. Umbjóðandi Landslaga taldi ferðaþjónustufyrirtækið hafa ferjað mennina í Hornvík. Í framhaldinu sendi umrætt ferðaþjónustufyrirtæki frá sér tilkynningu þar sem fram kom að mennirnir væru ekki á vegum fyrirtækisins heldur hefði fyrirtækið einungis flutt þá í Hornvík og sótt þá viku síðar.

Umbjóðandi Landslaga sagði í framhaldsfrétt af málinu að skýringar fyrirtækisins stæðust enga skoðun, enda hafi starfsmenn þess verið hið minnsta með veiðimönnunum í sólarhring og verið hjá mönnunum þegar hann bar að garði.

Í málinu var þess krafist að ummæli umbjóðanda Landslaga sem tengdust veiðiþjófnaði yrðu dæmd dauð og ómerk auk ummæla hans um að skýringar ferðaþjónustufyrirtækisins stæðust ekki skoðun og að þau hafi verið aumt yfirklór.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að hluti ummælanna sem kært var fyrir hafi ekki verið frá umbjóðanda Landslaga komin og því ekki hægt að dæma hann fyrir þau. Þá yrði að telja önnur ummæli skoðun hans en ekki staðreyndir. Dómurinn vísar til tjáningarfrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar og tekur fram að ekki hafi verið í andstöðu við réttindi hans að tjá sig. Umbjóðandi Landslaga var einnig sýknaður af kröfu um skaðabtur, en farið var fram á tvær milljónir króna auk þess að hann myndi greiða fyrir birtingu dómsins á opinberum vettvangi. Dóm héraðsdóms má lesa hér. Jóhannes Bjarni Björnsson hrl. fór með málið fyrir hönd stefnda.

Landslög veita alhliða lögfræðiráðgjöf, m.a. ráðgjöf á sviði tjáningarfrelsis og fjölmiðla. Nánari upplýsingar um þjónustu Landslaga veitir Hildur Ýr Viðarsdóttir hrl. (hildur@landslog.is).