Umbjóðanda Landslaga dæmdar bætur vegna afleiðinga umferðarslyss

birt 23. október 2015

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp 19. október sl., í máli nr. E-6/2015, var vátryggingarfélag dæmt til að greiða umbjóðanda Landslaga tæpar fjórar milljónir króna auk vaxta og dráttarvaxta vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í umferðarslysi 16. apríl 2010.

Málið er áhugavert fyrir margar sakir. Upphaflega hafnaði vátryggingarfélagið greiðsluskyldu með vísan til þess að því hafi borist ábending um vátryggingarsvik. Þá byggði félagið höfnun jafnframt á eigin útreikningum um höggþyngd við áreksturinn og skýrslu sem fyrirtækið Aðstoð og öryggi ehf. vann að beiðni vátryggingarfélagsins.

Á fyrri stigum var málið sent til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Með úrskurði hafnaði nefndin kröfu tjónþolans um að viðurkenndur væri réttur hennar til bóta vegna afleiðinga slyssins

Fyrir dómi tefldi vátryggingarfélagið fram mörgum málsástæðum sem það taldi eiga að leiða til sýknu. Félagið byggði á því að læknisfræðileg gögn í málinu fælu ekki í sér sönnum um líkamstjón þar sem þau byggðu alfarið á endursögn tjónþola um einkenni sín en ekki áþreifanlegum gögnum, t.d. myndgreiningarrannsóknum. Þá mótmælti félagið sönnunargildi matsgerðar sem aflað var einhliða af hálfu lögmanns tjónþolans og settu fram ýmsar athugasemdir við efni hennar og niðurstöður. Félagið byggði áfram á höggþyngdarútreikningum sínum og skýrslu Aðstoðar og öryggis ehf. Þá vísaði félagið einnig til þess að annar farþegi í sömu bifreið hefði að mati dómkvaddra matsmanna ekki orðið fyrir líkamstjóni við áreksturinn.

Héraðsdómur Reykjavíkur tók ekki undir málatilbúnað vátryggingarfélagsins. Dómurinn leggur til grundvallar matsgerð sem lögmaður tjónþola aflaði einhliða og tók að öðru leyti undir málatilbúnað tjónþolans. Um málatilbúnað vátryggingarfélagsins segir m.a. „Gögn sem stefndu [vátryggingafélagið] hafa lagt fram í málinu og varða eðli umrædds árekstrar geta ekki talist hnekkja framangreindri sönnun [einhliða aflaðrar matsgerðar]. Þá geta gögn sem fjalla um aðra þá sem voru í umræddri bifreið á umræddum tíma ekki heldur haft hér áhrif og því síður er unnt að líta til niðurstöðu matsgerðar er varðar það hvort annar einstaklingur sem var í sömu bifreið í árekstrinum hafi orðið fyrir líkamstjóni.“

Héraðsdóminn er að finna hér.

Ekki liggur fyrir hvort vátryggingarfélagið hyggist áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur til Hæstaréttar Íslands.

Styrmir Gunnarsson hdl. flutti málið fyrir héraðsdómi. Lögmenn Landslaga eru sérhæfðir í líkamstjónsmálum og uppgjöri við tryggingarfélög. Vilji fólk kanna réttarstöðu sína er fyrsta viðtal án endurgjalds.