Fordæmisgefandi dómur Hæstaréttar um fyrirframgreiddan arf

birt 4. apríl 2025

Á miðvikudaginn sl. kvað Hæstiréttur upp dóm í máli um arf sem umbjóðendur Landslaga fengu greiddan fyrirfram frá foreldrum sínum. Í málinu gerði dánarbú foreldranna kröfu um að umbjóðendur Landslaga endurgreiddu þann hluta arfsins sem var umfram skylduarf þeirra. Aðilar deildu um hvort skilyrðum fyrir slíkri endurgreiðslu væri mætt.

Niðurstaða Hæstaréttar var sú að endurgreiðslukröfurnar ættu ekki rétt á sér nema viðkomandi erfingi hefði sérstaklega skuldbundið sig til slíkrar endurgreiðslu, sbr. 32. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Það höfðu erfingjarnir ekki gert. Í dóminum segir m.a. að að baki 32. gr. erfðalaga búi fyrst og fremst þau sanngirnisrök að erfingi sem fengið hefur fyrirframgreiddan arf, oft löngu fyrir andlát arfleifanda, þurfi ekki að gera ráð fyrir að verða að endurgreiða hluta hans jafnvel áratugum síðar.

Dómurinn er fordæmisgefandi um túlkun erfðalaga og heimildir arfleifanda til að ráðstafa eignum sínum með greiðslu arfs fyrirfram.

Dóminn má finna hér.

Sveinbjörn Claessen, lögmaður og einn eigenda Landslaga, flutti málið á öllum dómstigum fyrir hönd erfingjanna sem kröfum var beint að.