Erindi á málþingi um samvinnuverkefni

birt 8. maí 2025

Jóhannes Bjarni Björnsson lögmaður á Landslögum flutti þann 7. maí sl. erindi á málþingi Vegagerðarinnar um samvinnuverkefni í samgönguframkvæmdum. Samvinnuverkefni eru verkefni þar sem einkaaðili annast eða tekur þátt í fjármögnun byggingar og reksturs opinbers mannvirkis. Með lögum um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir frá árinu 2020 var Vegagerðinni heimilað að eiga samvinnu við einkaaðila um fjármögnun, hönnun, undirbúning og framkvæmdir við sex afmörkuð samvinnuverkefni. Af verkefnunum sex eru tvö komin til framkvæmda; hringvegur um Hornafjarðarfljót og Ölfusárbrú.

Landslög hafa veitt Vegagerðinni lögfræðiráðgjöf á öllum stigum verkefnanna tveggja og hefur Jóhannes Bjarni leitt þá vinnu fyrir hönd stofunnar. Á málþinginu flutti hann erindi um lagaumhverfi samvinnuverkefna og þá sérstöðu sem samvinnuverkefni njóta þegar kemur að útboðsferli þeirra.