birt 12. júní 2025
Í dag, 12. júní 2025, var lokið uppgjöri skulda ÍL-sjóðs sem lengi hefur verið beðið eftir. Landslög hafa fylgt málinu um þriggja ára skeið og því tilefni að rekja gang þess.
Málið rekur sig til ársins 2004 þegar Íbúðalánasjóður, sem þá fjármagnaði þorra allra húsnæðislána í landinu, breytti sinni eigin fjármögnun. Sjóðurinn gaf út verðtryggð skuldabréf með föstum 3,75% vöxtum til allt að 40 ára, án þess að geta greitt þau upp þegar markaðsaðstæður eða fjárhagur sjóðsins hefðu gert það ákjósanlegt.
Eftir að viðskiptabankarnir hófu innreið sína á íbúðalánamarkaðinn skömmu síðar greiddu margir íbúðaeigendur upp lánin sín hjá Íbúðalánasjóði enda buðust betri kjör annars staðar. Þetta leiddi til þess að Íbúðalánasjóður stóð uppi með mikið reiðufé sem ekki var hægt að nýta til að greiða upp skuldir og hafði takmarkað svigrúm til að fjárfestinga.
Þetta leiddi til þess að með tímanum borgaði Íbúðalánasjóður alltaf hærri vexti til sinna lánveitenda en sjóðurinn fékk greidda í gegnum eigin húsnæðislán. Með viðvarandi taprekstri hækkuðu skuldir og urðu smám saman hærri en eignir sjóðsins. Á síðustu árum hefur þetta tap numið um 20 milljörðum króna á ári. Við þetta bættist að lánastarfsemi sjóðsins á almennum markaði dróst verulega saman vegna takmarkana á niðurgreiðslu á samkeppnismarkaði.
Árið 2019 voru sett lög sem byrjuðu það ferli sem nú lýkur. Fjármálaráðuneytið fékk það verkefni að vinna að uppgjöri eigna og skulda sjóðsins á sem hagkvæmastan hátt fyrir ríkissjóð, sem bar ábyrgð á skuldum Íbúðalánasjóðs. Erlend matsfyrirtæki höfðu bent á um árabil að óvissa um hvernig staðið yrði að uppgjöri sjóðsins hefði í för með sér neikvæð áhrif á lánshæfismat íslenska ríkisins.
Vorið 2022 komu Landslög að málefnum Íbúðalánasjóðs, sem þá hafði fengið nafnið ÍL-sjóður. Í fyrstu var unnið lögfræðiálit um eðli ábyrgðar ríkisins á skuldum sjóðsins sem vísað var til í skýrslu fjármálaráðherra til Alþingis í október 2022. Eftir það sinnti Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður hjá Landslögum ráðgjöf um framhald málsins, m.a. voru kynnt áform um lagasetningu 31. mars 2023. Frumvarp var lagt fram á þingi veturinn 2023-2024. Teknar voru upp samningaviðræður á milli fulltrúa 18 lífeyrissjóða og stjórnvalda í febrúar 2024. Jóhannes Karl var einn þriggja fulltrúa ríkisins í viðræðunum sem stóðu yfir óslitið til 10. mars 2025 þegar samkomulag tókst um að leggja tillögu fyrir fund skuldabréfaeigenda en samþykki þurfti frá 75% þeirra.
Í undirbúningi fundar skuldabréfaeigenda tók við tæknilega flókið ferli þar sem senda þurfti boðanir og tilkynningar í gegnum ýmis skuldabréfa- og greiðslukerfi og halda utan um atkvæði þeirra sem hagsmuna höfðu að gæta í samræmi við útgáfulýsingu bréfanna. Að undirbúningi fundarins og fundarstjórn komu Sigurgeir Valsson og Viðar Lúðvíksson lögmenn hjá Landslögum. Á fundunum 10. mars hlutu tillögurnar samþykki um 80% eigenda skuldabréfanna og á sama tíma var lagt fram frumvarp til laga sem veitti fjármálaráðherra heimild til að nýta sér fundarsamþykktina. Jóhannes Karl kom fyrir fjárlaganefnd eftir fyrstu umræðu á þingi. Frumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi 3. júní 2025.
Uppgjör samkomulagsins fór þannig fram að sambland eigna ÍL-sjóðs og nýrra ríkisskuldabréfa var afhent til hundraða fyrri kröfuhafa. Því verkefni lauk í dag með góðri samvinnu Íslandsbanka, sem var umsjónaraðili, Seðlabanka Íslands og fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Í umsögn fjárlaganefndar segir að ávinningur ríkissjóðs sé fjórþættur: Taprekstur ÍL-sjóðs er stöðvaður; kostnaður við uppgjör liggur fyrir og er fjármögnun trygg; samkomulagið bindur enda á óvissu og treystir orðspor ríkissjóðs og að síðustu hefur samkomulagið jákvæð áhrif á skuldahlutföll og vaxtakostnað ríkissjóðs á næstu árum.
Flækjustig verkefnisins á lagalegan og fjárhagslegan mælikvarða var mikið, en með samstilltu átaki tókst að sigla því í höfn. Samstarf við ráðgjafa lífeyrissjóða, Logos og Arctica Finance tókst einstaklega vel og greitt var úr öllum vandamálum og ágreiningsefnum sem upp komu af sanngirni. Niðurstaða málsins er gleðiefni og Landslög eru stolt og þakklát þátttöku sinni í verkefninu.