Hildur Ýr lætur af störfum á Landslögum

birt 10. september 2025

Hildur Ýr Viðarsdóttir, lögmaður og einn eigenda Landslaga, hefur ákveðið að söðla um og hefja störf á nýjum vettvangi.

Hildur Ýr hóf störf sem laganemi á Landslögum fyrir 19 árum og hefur starfað sem lögfræðingur og síðan lögmaður á stofunni frá útskrift úr lagadeild árið 2008. Hildur Ýr hlaut réttindi til að starfa sem héraðsdómslögmaður árið 2008 og sem hæstaréttarlögmaður árið 2017. Hún hefur fengist við mörg og stór verkefni í störfum sínum á Landslögum, m.a. á sviði vátryggingaréttar, skaðabótaréttar og fasteignakauparéttar, en Hildur Ýr er yfirmaður deildar innan stofunnar sem rekur ágreiningsmál er varða kaup og sölu fasteigna. Eftir að Hildur Ýr lætur af störfum er rekstur deildarinnar í góðum höndum þeirra Sveinbjörns Claessen og Söru Bryndísar Þórsdóttur.

Hildur Ýr hefur kennt við lagadeild Háskóla Íslands frá árinu 2010, en árið 2019 tók hún við stöðu aðjúnkts við deildina. Hildur Ýr hefur nú tekið við stöðu lektors við lagadeild Háskóla Íslands og lætur því af störfum hjá Landslögum.

Við samstarfsmenn hennar kveðjum Hildi Ýri með söknuði, þökkum henni kærlega fyrir frábært samstarf undanfarna tvo áratugi og óskum henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.