Stefnumarkandi úrskurður kærunefndar útboðsmála

birt 12. nóvember 2025

Þann 11. nóvember 2025 kvað kærunefnd útboðsmála upp stefnumarkandi úrskurð um hvernig meta skuli fjárhagsstöðu þátttakenda í útboði. Í útboðsgögnum var m.a. gerð krafa um að lágmarks veltufjárhlutfall bjóðenda skyldi vera 1 eða hærra. Við mat á tilboði eins bjóðanda var litið til ársreiknings hans fyrir árið 2023 en samkvæmt honum var veltufjárhlutfall 0,946. Aftur á móti hafði bjóðandinn einnig lagt fram ársreikning fyrir árið 2022 þar sem veltufjárhlutfall var 1,207. Í úrskurði kærunefndar segir að ekki hafi verið tiltekið með skýrum hætti í útboðsgögnum að líta ætti til upplýsinga í ársreikningi 2023. Þar af leiðandi væri varhugavert að leggja til grundvallar að bjóðandinn hefði ekki fullnægt þessu viðmiði. Var ákvörðun um að hafna tilboði hans því talin ólögmæt. Þá taldi kærunefndin slíka annmarka á tilboði þess sem samið var við, þar sem vantað hafi allar upplýsingar um tæknilegan ráðgjafa, öryggisráðgjafa og ráðgjafa verkefnaáætlunar, að líta yrði svo á að tilboð hans hefði verið ógilt.

Magnús Ingvar Magnússon lögmaður gætti hagsmuna kæranda í málinu.