birt 11. júlí 2025
Í síðustu viku gekk áhugaverður dómur í Hæstarétti Íslands í máli nr. 7/2025 er varðar rétt verktaka til viðbótargreiðslna vegna áhrifa þeirra aðgerða sem gripið var til í kjölfar kórónuveirufaraldursins.
Líkt og kunnugt er tóku gildi þann 31. mars 2020 lög nr. 25/2020 um tímabundnar ráðstafanir til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru sem fólu meðal annars í sér að endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu við byggingarframkvæmdir íbúðarhúsnæðis hækkaði í 100%. Lagabreytingin hafði það í för með sér að á tilteknu tímabili þetta sama ár lækkaði vísitala byggingarkostnaðar um 2,8% í stað þess að hækka um 0,3% ef ekki hefði komið til aðgerðanna.
Í máli þessu var um að ræða verksamning sem aðilar málsins höfðu gert með sér um breikkun Reykjanesbrautar og samkvæmt ákvæðum verksamningsins voru greiðslur til verktaka verðbættar til samræmis við byggingarvísitölu. Eðli málsins samkvæmt höfðu framangreindar breytingar á vísitölunni nokkur áhrif á greiðslur til verktakans en algengt er að greiðslur til verktaka séu verðbættar með þessum hætti og ætla má að fleiri verktakar hafi orðið fyrir sömu áhrifum. Niðurstöðu dómsmálsins var því beðið með nokkurri eftirvæntingu.
Í málinu byggði verktakinn á því að líta ætti fram hjá breytingunni sem varð á byggingarvísitölunni í maí 2020 með vísan til greinar 5.1.13 í ÍST 30:2012 en staðallinn var hluti af verksamningi aðila. Félagið ætti því rétt til viðbótargreiðslna frá verkkaupa. Í umræddu ákvæði ÍST 30 segir eftirfarandi: „Báðir aðilar geta krafist breytinga á samningsfjárhæð ef fram koma á samningstímabilinu breytingar á lögum, almennum stjórnvaldsfyrirmælum eða aðrar breytingar er hafa áhrif á kostnað verktaka eða verkkaupa, til hækkunar eða lækkunar sem reglur um verðbreytingar í samningi endurspegla ekki.“
Rétt er að taka fram að sambærilegt ákvæði hafði verið í fyrri útgáfu ÍST 30 og höfðu dómar Hæstaréttar gengið um beitingu þess ákvæðis í kjölfar sambærilegra stjórnvaldsaðgerða sem gripið var til í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Í þeim málum hafði því verið hafnað að heimild ákvæðisins til breytingar á verklaunum gæti tekið til aðstæðna sem þessara en í málunum var gengið út frá því að þetta fyrra ákvæði ÍST 30 tæki aðeins til kostnaðar verktaka við að leysa verk af hendi. Því gætu breytingar á vísitölu ekki fallið undir ákvæðið. Við endurskoðun ÍST 30 staðalsins á árinu 2012 voru því gerðar smávægilegar orðalagsbreytingar á ákvæðinu og sérstaklega tekið fram að um væri bæði að ræða kostnað verktaka og verkkaupa sem og að það gilti jafnt um hækkun og lækkun þess kostnaðar.
Í ljósi þessa var þess beðið hvernig Hæstiréttur myndi nú túlka ákvæðið og þá hvort breyting á vísitölu af þessu tagi gæti nú fallið undir heimild ákvæðisins til breytingar á verklaunum. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í málinu að ákvæði 5.1.13 í ÍST 30 gæti ekki náð til þess tilviks sem um ræddi í málinu en túlka þyrfti ákvæðið í samræmi við orðalag þess með tilliti til efnis og markmiða verksamningsins. Samkvæmt verksamningnum hefðu aðilar samið um að umsamin verklaun tækju breytingum til samræmis við byggingarvísitölu en ákvæði greinar 5.1.13 gæti aðeins komið til álita ef slík regla verksamnings um verðbreytingar endurspegli ekki þau áhrif sem lagabreyting hefði á kostnað verkkaupa.
Að mati Hæstaréttar endurspegluðust breytingar á heildarendurgjaldi fyrir verkið og þar með kostnaði verkkaupa í þeim verðmæli sem aðilar höfðu komið sér saman um í verksamningi aðila og geti það því ekki samrýmst efnislegu inntaki greinar 5.1.13 í ÍST 30 að breytingar á forsendum slíks verðmælis feli sjálfkrafa í sér breytingu á kostnaði verkkaupa í skilningi greinarinnar.
Hæstiréttur hafnaði þá jafnframt öðrum málsástæðum verktakans um breytingar á samningsfjárhæðinni á öðrum lagagrundvelli og var verkkaupi því sýknaður af kröfum verktakans um viðbótargreiðslur.
Með framangreint í huga er þannig ljóst að mati undirritaðs að gera þarf afdráttarlausari breytingar á umræddu ákvæði 5.1.13 í ÍST 30 sé það ætlunin að reglan nái til þeirra aðstæðna þegar aðgerðir stjórnvalda hafa áhrif á þróun þeirrar vísitölu sem aðilar verksamnings hafa samið um sem verðmæli við ákvörðun heildarendurgjalds fyrir verkframkvæmd.