Dómur um tafir á verklokum
birt 3. nóvember 2025
Þann 31. október 2025 féll í Héraðsdómi Reykjavíkur dómur í máli Húsasmiðjunnar gegn Dalsnesi. Málið laut að byggingu vöruhúss Inness að Korngörðum 3 en Húsasmiðjan hafði tekið að sér sem verktaki að framleiða og reisa stálvirki og klæðningu hússins. Verki Húsasmiðjunnar lauk í nóvember 2019 og hefur ágreiningur aðila um bætur vegna tafa á verkinu og annarra atriða staðið síðan þá. Í málinu reyndi á ýmsar grundvallarreglur verktakaréttar, m.a. um tafir og verkskil. Héraðsdómur féllst á kröfur Húsasmiðjunnar um bætur vegna tafa á verkinu samtals að fjárhæð um kr. 243.167.644 auk endurgreiðslu á verkábyrgð sem verkkaupi hafði gengið að. Samtals námu kröfur Húsasmiðjunnar sem fallist var á kr. 280.969.294. Að teknu tilliti til gagnkrafna Dalsness var það niðurstaða héraðsdóms að Dalsnesi bæri að greiða Húsasmiðjunni kr. 181.752.982 auk vaxta og dráttarvaxta.
Jóhannes Karl Sveinsson og Magnús Ingvar Magnússon lögmenn á Landslögum gættu hagsmuna Húsasmiðjunnar við rekstur málsins.