Fallist á gallakröfur vegna leka

birt 11. janúar 2023

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað í síðustu viku upp dóm í máli sem kaupendur fasteignar höfðuðu gegn seljendum eignarinnar. Töldu kaupendurnir að eignin hefði verið haldin galla í skilningi fasteignakauparéttar þar sem vatn lak frá þaki, meðfram gluggum og frá lögnum í baðherherbergi. Við sölu eignarinnar var upplýst að skipt hefði verið um járn á þaki eignarinnar árið 2015 og baðherbergi væri nýuppgert. Var það niðurstaða héraðsdóms að eignin hefði verið haldin göllum við söluna sem rýrðu verðmæti hennar svo nokkru varði. Voru seljendur því dæmdir til að greiða kaupendum rúmar sjö milljónir króna í skaðabætur, auk tæplega þriggja milljóna króna í málskostnað.

Hildur Ýr Viðarsdóttir lögmaður flutti málið fyrir hönd kaupenda fasteignarinnar.