Fallist á launakröfu landsliðsmanns í körfubolta á hendur fyrrverandi félagsliði sínu

birt 14. júlí 2021

Hinn 1. júlí sl. kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm í máli sem íslenskur landsliðsmaður í körfuknattleik höfðaði á hendur fyrrverandi félagsliði sínu vegna vangreiddra launa. Í málinu hélt félagið m.a. fram að leikmaðurinn ætti ekki rétt til launanna þar sem hann hafi verið fjarverandi vegna meiðsla og veikinda auk þess sem skylda félagsins til greiðslu launa hafi fallið niður í nánar tiltekinn tíma í kjölfar þess að Íslandsmótinu í körfuknattleik var hætt vegna COVID-19 faraldursins. Þá tefldi félagið fram ýmsum gagnkröfum á hendur leikmanninum. Í dómi héraðsdóms var áðurnefndum málsástæðum og gagnkröfum félagsins hafnað og það dæmt til að greiða kröfu leikmannsins að svo gott sem öllu leyti, eða fjárhæð kr. 3.783.056, ásamt nánar tilteknum dráttarvöxtum. Þá var félagið dæmt til að greiða leikmanninum kr. 1.400.000 í málskostnað.
Jón Gunnar Ásbjörnsson, lögmaður á Landslögum, rak málið fyrir hönd leikmannsins.