Grein um nýfallinn dóm Hæstaréttar um þýðingu verðtryggingar í verksamningum
birt 7. ágúst 2025
Gunnar Atli Gunnarsson, lögmaður á Landslögum og aðjúnkt við lagadeild Háskóla Íslands, hefur ásamt Víði Smára Petersen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, birt grein í Vefriti Úlfljóts um nýfallinn dóm Hæstaréttar í máli nr. 7/2025. Í greininni er fjallað um niðurstöður og forsendur dómsins og þær þýðingarmiklu ályktanir sem má draga af honum um þýðingu verðtryggingar í verksamningum og þá áhættu sem getur verið fólgin í slíkri tryggingu. Niðurlag greinarinnar er svohljóðandi:
„Að lokum er einn almennari lærdómur sem má draga af niðurstöðu Hæstaréttar og raunar einnig eldri dómum réttarins. Veruleg áhætta er fólgin í því að nota byggingarvísitölu Hagstofu Íslands sem grundvöll verðbóta, því hún mælir illa verðbreytingar í öðrum verkum en vinnu við íbúðarhúsnæði. Byggingarvísitalan er því oft slæm áhættutrygging, sérstaklega fyrir verktaka í stærri verkum. Eðlilegt er að byggingariðnaðurinn ræði möguleikann á sérhæfðari vísitölum, ef vilji er til þess að láta vísitölur endurspegla raunverulegar verðbreytingar. Er t.d. kleift að nota stálvísitölu fyrir stál, steypuvísitölu fyrir steypu o.s.frv., eins og þekkist víða erlendis?“
Greinina má nálgast hér.