Grein um riftun verksamninga
birt 17. nóvember 2025
Gunnar Atli Gunnarsson, lögmaður á Landslögum og aðjúnkt við lagadeild Háskóla Íslands, hefur ásamt Víði Smára Petersen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, birt grein í Tímariti lögfræðinga um riftun verksamninga. Í greininni er með heildstæðum hætti gerð grein fyrir riftun verksamninga um mannvirkjaframkvæmdir en um er að ræða fyrstu fræðaskrifin á íslensku þar sem lögð er áhersla á riftun á þessu réttarsviði en þau byggja á rannsókn á innlendri dómaframkvæmd, sjónarmiðum fræðimanna og samanburði við þróun settra laga og samningsskilmála í öðrum löndum.
Í greininni er m.a. fjallað um þá meginreglu að veruleg vanefnd sé skilyrði riftunar í verktakarétti en jafnframt gerð grein fyrir tilteknum tilvikum sem eiga það sammerkt að heimila riftun án þess að skilyrðinu um verulega vanefnd sé fullnægt á tímamarki riftunar. Þá er fjallað um heimild annars vegar verkkaupa og hins vegar verktaka til þess að rifta verksamningi. Enn fremur er fjallað um framkvæmd riftunar sem og réttaráhrif og uppgjör við riftun. Loks er vikið að því að hvaða leyti breytinga er þörf á samningsstaðlinum ÍST 30.