Gunnar Atli hlýtur kennsluverðlaun Orators

birt 13. febrúar 2025

Kennsluverðlaun Orators fyrir skólaárið 2024-2025 voru afhent á hátíðarmálþingi Orators þann 12. febrúar sl. Markmið verðlaunanna er að heiðra þá kennara sem þykja hafa skarað fram úr í kennslu við lagadeild Háskóla Íslands, auk þess að vera kennurum og nemendum hvatning til þess að hafa áhrif á þróun og framfarir við kennslu deildarinnar.

Gunnar Atli Gunnarsson, lögmaður á Landslögum, hlaut kennsluverðlaunin í ár. Gunnar Atli hefur sinnt kennslu við lagadeild Háskóla Íslands frá árinu 2021 og var skipaður aðjúnkt við deildina árið 2024. Hefur hann sinnt kennslu í kröfurétti, samningarétti, neytendarétti, fullnusturéttarfari og áfanganum fasteignir og fasteignaréttindi og auk þess verið leiðbeinandi nemenda er skrifa BA-ritgerðir á sviði samningaréttar og leiðbeinandi við skrif meistararitgerða.

Gunnar Atli er vel að þessum verðlaunum kominn og óska Landslög honum innilega til hamingju.