Héraðsdómur hafnar innsetningu í skjöl til framlagningar í dómsmáli

birt 16. september 2020

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 15. september 2020 var fallist á kröfu Isavia ohf. um að hafna aðfararbeiðni Hópbifreiða Kynnisferða ehf. um innsetningu í gögn og skjöl með upplýsingum  um gjaldtöku vegna afnota hópferðabifreiða af bílastæðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Forsaga málsins er sú að Kynnisferðir höfðuðu dómsmál á hendur Isavia í maí 2019 þar sem þess er krafist að ákvæðum í rekstrarleyfissamningi um afnot bílastæða við flugstöðina verði breytt að efni til með dómi þar sem þau fælu í sér ólögmæta mismunun. Undir rekstri málsins skoruðu Kynnisferðir á Isavia að leggja fram gögn og skjöl um gjaldtöku af öðrum rekstraraðilum hópferðabifreiða. Isavia hafnaði því að m.a. með vísan til þess að félagið myndi með því brjóta gegn 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Í kjölfar neitunarinnar lögðu Kynnisferðir fram aðfararbeiðni og kröfðust innsetningar í þau gögn og sköl sem félagið hafði skorað á Isavia að leggja fram í dómsmálinu. Gerði Isavia kröfu um að beiðninni yrði hafnað meðal annars með vísa til þess að aðfararbeiðnin færi gegn meginreglum réttarfars, auk þess sem hún gengi gegn ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2010 og ákvæðum samkeppnislaga.

Í forsendum úrskurðar héraðsdóms kemur fram að fyrrnefndu dómsmáli milli sömu aðila sé ólokið og í því máli hafi verið skorað á Isavia að leggja fram umrædd gögn. Kynnisferðir freisti þess í aðfararmálinu að afla gagna til framlagningar og sönnunarfærslu í dómsmálinu. Telur héraðsdómur það stangast á við meginreglur einkamálaréttarfars, m.a. regluna um milliliðalausa málsmeðferð fyrir dómi. Þá taldi héraðsdómur einnig að farið væri gegn málsforræðisreglu réttarfars sem byggir á því að aðilar dómsmáls hafi forræði á sönnunarfærslu og leggi fram sönnunargögn sem þeir ýmist hafa undir höndum eða afla frá öðrum undir rekstri málsins. Tekur héraðsdómur fram að við slíka öflun sönnunargagna geti aðili ekki fengið gagnaðila sinn knúinn til athafna, hvorki til skýrslugjafar fyrir dómi né láta af hendi skjöl eða önnur sýnileg sönnunargögn. Hafnaði dómurinn því beiðninni.

Hlynur Halldórsson lögmaður gætti hagsmuna Isavia ohf. í málinu.