Isavia sýknað af kröfum Hópbíla og Airport Direct

birt 23. nóvember 2023

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur kveðið upp dóm í máli sem félögin Hópbílar ehf. og Airport Direct ehf. höfðuðu gegn Isavia. Forsaga málsins er sú að árið 2017 fór fram útboð um aðgang að stæðum fyrir hópferðabifreiðar við flugstöð Leifs Eiríkssonar og aðstöðu til miðasölu innanhúss. Í kjölfar útboðsins var samið við Hópbíla ehf. og Airport Direct ehf. Í dómsmálinu var tekist á um hvort öðrum fyrirtækjum en þeim, sem urðu hlutskörpust í útboðinu, væri heimilt að nýta svokölluð fjarstæði við flugstöðina til áætlunarferða, sem og hver gjaldtakan af notkun þeirra ætti að vera. Að mati Hópbíla ehf. og Airport Direct ehf. fól notkun annarra félaga í hópbifreiðaakstri á fjarstæðunum í sér brot á samningunum sem gerðir voru í kjölfar útboðsins og kröfðust bóta vegna þess tjóns sem þau töldu sig hafa orðið fyrir. Með dómi héraðsdóms var Isavia sýknað af öllum kröfum fyrirtækjanna, sem námu tæpum einum milljarði króna.

Hlynur Halldórsson lögmaður rak málið fyrir hönd Isavia.