Íslenskir aðalverktakar sýknaðir í deilu um stálvirki

birt 2. mars 2023

Héraðsdómur Reykjaness kvað í dag upp dóm í máli sem varðaði uppgjör Íslenskra aðalverktaka hf. og undirverktaka félagsins á stálvirki nýs íþróttamannvirkis í Garðabæ. Voru aðilar ósammála um greiðsluskyldu ÍAV og við hvaða magn á stáli skyldi miða uppgjörið við. Í málinu krafðist A Faktoring ehf., sem keypt hafði meintar kröfur undirverktakans, aðallega að ÍAV yrði dæmt til þess að greiða félaginu 432.208,22 evrur en til vara að ÍAV yrði dæmt til þess að greiða félaginu 352.663,91 evrur. Niðurstaða dómsins var sú að sýkna ÍAV af öllum kröfum A Faktoring. Byggði niðurstaðan meðal annars á því að sérstaklega hefði verið samið um það á milli aðila að miða skyldi uppgjör á stálvirki byggingarinnar við raunhönnun ÍAV á stálinu. ÍAV hefði greitt undirverktakanum í samræmi við það og hefði uppgjör á verkinu farið réttilega fram.

Fyrir hönd ÍAV flutti málið Magnús Ingvar Magnússon, lögmaður hjá Landslögum.