Jóhannes Karl Sveinsson skipaður dómari við Endurupptökudóm

birt 18. febrúar 2021

Þann 1. desember sl. var Endurupptökudómi komið á fót, en hann er sérdómstóll sem tekur ákvörðun um hvort heimila eigi endurupptöku dómsmála sem dæmd hafa verið í héraði, Landsrétti eða Hæstarétti. Í Endurupptökudómi sitja fimm dómendur, einn frá hverju dómstigi og tveir aðrir sem ekki eru embættisdómarar. Skipað er í þessar tvær stöður að undangenginni auglýsingu og umsögn dómnefndar um hæfni umsækjenda um dómaraembætti. Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður á Landslögum, er annar þeirra sem skipaður var dómari við Endurupptökudóm og ekki er embættisdómari.