Jóhannes Karl Sveinsson skipaður dómari við Endurupptökudóm

birt 18. febrúar 2021

Þann 1. desember sl. var Endurupptökudómi komið á fót, en hann er sérdómstóll sem tekur ákvörðun um hvort heimila eigi endurupptöku dómsmála sem dæmd hafa verið í héraði, Landsrétti eða Hæstarétti. Í Endurupptökudómi sitja fimm dómendur, einn frá hverju dómstigi og tveir aðrir sem ekki eru embættisdómarar. Skipað er í þessar tvær stöður að undangenginni auglýsingu og umsögn dómnefndar um hæfni umsækjenda um dómaraembætti. Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður á Landslögum, er annar þeirra sem skipaður var dómari við Endurupptökudóm og ekki er embættisdómari. Að því er best er vitað verður Jóhannes þar með fyrsti starfandi lögmaðurinn til að gegna embætti dómara meðfram lögmannsstörfum.