Kröfu um stöðvun framkvæmda við Vestfjarðaveg um Teigskóg hafnað

birt 8. júní 2020

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kæru Landverndar um stöðvun framkvæmda á grundvelli ákvörðunar sveitarstjórnar Reykhólahrepps frá 25. febrúar 2020 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Vestfjarðarveg á milli Bjarkalundar og Skálaness, sem m.a. liggur um Teigskóg. Landvernd gerði þá kröfu að framkvæmdir yrðu stöðvaðar þar til niðurstaða fengist í málið.

Forsaga málsins er sú að leggja átti nýjan Vestfjarðarveg frá Bjarkalundi að Skálanesi við Þorskafjörð í Reykhólahreppi. Í matsskýrslu Vegagerðarinnar vegna framkvæmdarinnar frá því í febrúar 2017 voru lagðar fram fimm leiðir til athugunar hjá Skipulagsstofnun. Ein þeirra var leiðin Þ-H sem liggur að hluta til í gegnum Teigsskóg. Vegagerðin lagði til að nýr vegur yrði lagður samkvæmt leið Þ-H. Á fundi sveitarstjórnar Reykhólahrepps þann 25. febrúar 2020 var tekin fyrir umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu nýs Vestfjarðarvegar, leið Þ-H, og lögð fram greinargerð um framkvæmdaleyfi ásamt skilmálum fyrir framkvæmdunum. Var umsóknin samþykkt af meirihluta sveitastjórnar og í framhaldinu kærði Landvernd ákvörðunina.

Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar sagði m.a: „Með vísan til umfangs og eðlis þeirra framkvæmda sem fram munu fara sumarið 2020 telur úrskurðarnefndin að ekki séu til staðar ástæður til þess að grípa til svo íþyngjandi úrræðis sem stöðvun framkvæmda er þar til úrskurður gengur í kærumálinu. Er enda ljóst miðað við fyrirhugað framhald kærumáls þessa að kæruheimild verður ekki þýðingarlaus þótt framkvæmdir verði ekki stöðvaðar.“

Ívar Pálsson lögmaður gætti hagsmuna Vegagerðarinnar í málinu.